Slefa í sundlauginni

ég varð bara að skella þessu fína leikriti inn.. njótið

PERSÓNUR:
Virgill: Baðvörður; ofstopamaður og umsjónarmaður heitustu pottanna
Jón: Svikari
Lopi: Sundguð með vandað skopskyn
Fröken Tyrpill: Vænn og sérlega þrifinn kvenkyns sundgestur
Ýmis dýr og konur: Rauðleit

1. þáttur: BLÓÐ Í SETLAUGINNI
Sviðið:
50 metra sundlaug. 18 misheitir pottar; 2-3,5 metrar í þvermál. Græn setlaug; 12 metrar í þvermál. Eitt 5 metra bretti og annað 1,5 metra. Sundlaugin sjálf er fyllt vatni og nagdýrum til hálfs. Klaufdýr fylla flesta pottana utan einn þar sem hænsn syngja og baða sig. Jón og Virgill standa við setlaugina sem er afar blóðug. Í henni miðri liggur látinn tapír. Ofan á honum stendur Lopi og hoppar.

Virgill:
ANNAR TAPÍR?! Þetta er með ólíkindum. Ég geri orðið ekki annað en þrífa tapíra úr lauginni.


Jón:
Má ég eigann?


Virgill:
Hvað vilt þú með tapír?


Jón:
Ég þarf hann ekki allan. Bara lappirnar og kannski eyrun.


Virgill:
Hvað ætlar þú að gera við tapíraeyru?


Jón:
Hmmm ... snyrta þau aðeins?


Virgill:
Þú getur svo sem hirtann - en þá verður þú líka að hreinsa laugina almennilega - og þú verður að lofa að þrífa þig áður en þú ferð oní.


Jón:
Ég er mjög þrifinn. (gengur í laugina, hrindir Lopa frá og dregur tapírinn burt)


Virgill:
Undarlegur þessi Jón. Þetta er áttundi tapírinn sem hann hirðir í þessari viku. Það gera sextán eyru og tuttugogátta lappir - tuttugogníu með þeim einfætta.


Lopi:
Bamm! (klórar sér á iljunum og þefar af þeim)


Virgill:
Reyndu svo að vera til friðs!(fer)


Lopi:
Súmpa! (hristir sig og ælir)

2. þáttur: BLÓÐ Á STURTUHENGINU
Sviðið:
Sturtur kvenna. Fröken Tyrpill sápar sig vendilega. Jón göslast inn með tapírinn í eftirdragi. Aðrar nærstæddar konur skrækja og hlaupa út með miklum rassaköstum.

Jón:
Gott kvöld fröken Tyrpill. Helduðu að ég megi ekki skola af þessum tapír hjá þér.


Tyrpill:
Jú, elskan mín góða, hvort þú mátt. Átt þú hann?


Jón:
Já, ég fékk hann gefins.


Tyrpill:
En ofsalega gaman. Ég er mikið fyrir tapíra.


Jón:
Já, þetta eru yndisleg dýr, ákaflega geðgóð.


Tyrpill:
Ég hef heyrt það. Hvað kom fyrir greyið?


Jón:
Myrtur.


Tyrpill:
Ææ, en eitthvað sorglegt. Hver gerir svoleiðis?


Jón:
Það gengur dularfullur morðingi laus hérna í laugunum.


Tyrpill:
Agalegt. Ég sem er á leiðinni oní.


Jón:
Engar áhyggjur, hann sækir aðallega í tapíra.


Tyrpill:
Það var nú gott. Það borgar sig samt að fara varlega þegar morðingjar eru annars vegar. Maður veit aldrei.


Jón:
Nei, það gerir maður svo sannarlega ekki. (tekur til við að skrúbba tapírinn)


Tyrpill:
Gasalega hlýtur þetta að vera gaman.


Jón:
(lítur upp) Hvað?


Tyrpill:
Að skrúbba svona dýr.


Jón:
Það er ágætt. Maður verður samt að passa sig að skemma ekki feldinn.


Tyrpill:
(áhugasöm) Hirðirðu hann?


Jón:
Feldinn? Nei. Bara lappirnar og eyrun


Tyrpill:
Sniðugt.


Jón:
Finnst þér ekki? (er orðinn rauður í framan af áreynslu; tapírablóðið frussast út um allt)


Tyrpill:
Ég safnaði svona eyrum þegar ég var lítil.

Virgill:
(kemur askvaðandi) Jón!


Jón:
(lítur upp og brosir) Virgill!!


Virgill:
(reiðilegur og um leið áminnandi) Ert þú eitthvað að atast í konunum Jón?


Jón:
Neineinei, ég er bara að skrúbba tapírinn minn, svo hann verði hreinn og fínn.


Virgill:
Núnú? (snýr sér að Tyrpli og heldur fyrir nefið) Er hann Jón eitthvað að angra yður fröken Tyrpill?


Tyrpill:
Alls ekki. Hann er ægilega skemmtilegur. Svo er alltaf ofsalega gaman að sjá tapír.


Virgill:
Það er nefnilega það. (snýr sér aftur að Jóni) Það er nú samt best að þú komir með mér Jón. Tapírinn þinn er orðinn hreinn.


Jón:
Gott og vel. (eltir Virgil út og dröslar tapírnum með sér)

Lopi:
(læðist inn í sturtuklefann og staðnæmist fyrir aftan fröken Tyrpil)


Tyrpill:
(með óhemju mikla sápu í augunum) Hvur er nú kominn?


Lopi:
Snýrr!!


Tyrpill:
Ég heyri alveg ofsalega illa í þér.


Lopi:
Grompa grompa!!


Tyrpill:
En eitthvað frábært!


Lopi:
(rífur barkann hljóðlega úr fröken Tyrpli) Snagg, solka!!

3. þáttur: BLÓÐ Í SETLAUGINNI
Sviðið:
50 metra sundlaug. 18 misheitir pottar; 2-3,5 metrar í þvermál. Græn setlaug; 12 metrar í þvermál. Eitt 5 metra bretti og annað 1,5 metra. Sundlaugin sjálf er fyllt vatni og nagdýrum til hálfs. Klaufdýr fylla flesta pottana utan einn þar sem hænsn syngja og baða sig. Jón og Virgill standa við setlaugina sem er afar blóðug. Í henni miðri liggur látinn tapír. Ofan á honum stendur Lopi og hoppar.

Virgill:
ANNAR TAPÍR?!

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband